154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:04]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, Samfylkingin ber okkur ekki saman við öll lönd í heiminum, við berum okkur saman við Norðurlöndin. Hér bera margir okkur saman við Norðurlöndin, m.a. þegar mikið er talað um vinnumarkaðinn. Það eru hærri skattar á Norðurlöndunum en í öðrum ríkjum. Þar er líka sterkari velferð. Víða í heiminum borgar fólk háa skatta. Ég bjó sjálf í New York og borgaði þar hærri launaskatt en ég borga hér en fékk samt í raun ekkert til baka úr velferðarþjónustunni. Það sem skiptir máli er hvað þú færð fyrir skattana þína, hvernig kaupmáttur þinn er gagnvart húsnæðiskostnaði, hvað þú færð í barnabótum, hvað þú færð í vaxtabótum. Stök mæling á lífsgæðum fólks í formi skattprósentu segir bara ósköp lítið. Forsenda verðmætasköpunar er auðvitað sú að það sé fólk til að sinna þessu, fólk sem hafi heilsu og getu til að taka þátt í atvinnulífinu. Við vitum það vel að þegar voru tekin stór skref hérna á sínum tíma til að styrkja menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið og hlutur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu óx hérna á síðustu öld þá stórjókst líka hagvöxtur vegna þess að mikill fjöldi fólks fór út á vinnumarkað og gat sinnt þessari vinnu. Þetta er samvinnuverkefni. Þetta er ekki svona einhliða. En ég hræðist ekkert umræðuna um þessa pólitík. Ég skil það að fólk sé ósammála um það hvernig það vill að skattkerfið sé sett upp en geta fyrirtækja til að greiða laun er vissulega líka háð velferðarþjónustunni sem er veitt í landinu. Ef það er lítil velferðarþjónusta, ef hún heldur ekki í við kröfur fólks, nútímakröfur fólks, þá kemur það fram í launakröfum á móti og það lendir á minni fyrirtækjunum í landinu, sérstaklega þar sem launakostnaður er hvað mestur. Af því hef ég líka áhyggjur.